Kristniboð

Er kristniboð ekki tímaskekkja á 21. öldinni? Á ekki hver og einn að fá að vera bara eins og hann er? Af hverju að troða trú sinni á aðra? Hvað er kristniboð?

Boð eða boð?

Kristniboð merkir að segja frá Jesú. Boð er hér að segja frá eins og þegar engillinn segir við hirðana:

Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð…

Lúk 2:10

Engillinn var ekki að skipa hirðunum fyrir. Hann var að segja frá gleðifréttum.

Frelsi, trúarbrögð1 og dyggð

Þetta er frábært módel að heilbrigðu þjóðfélagi2 en líka afbragð til að staðsetja kristniboð innan þjóðfélags og setja það í samhengi.

Frelsi

  • Hugsana- og skoðanafrelsi: Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar segir í 73. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.
  • Viðskiptafrelsi: Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa (75. gr.). Eignarrétturinn er friðhelgur (72. gr.)
  • Trúfrelsi: Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins (63. gr.)
  • Ferðafrelsi: Allir, sem dveljast löglega í landinu, skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum (66. gr.). Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum (67. gr.).

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um frelsi í stjórnarskrá Íslands.

Trúarbrögð / Hugmyndakerfi

Þetta eru þær hugmyndir sem við notum til að skilja heiminn og okkur sjálf. Þetta eru stóru grundvallar hugmyndirnar sem við notum til að svara spurningum eins og:

  • Hvaðan kem ég?
  • Hver er ég? Hvað er að vera manneskja?
  • Hvert er ég að fara?
  • Er tilgangur með heiminn og með mínu lífi?
  • Hvernig er siðferðislegum spurningum svarað? Hver er grundvöllurinn til að greina á milli rétts og rangs?
  • Hvað er þekking og hvernig öflum við og sannreynum þekkingu?
  • Hafa manneskjur virði og vægi og hvernig er það rökstutt?
  • Er munur á mönnum og dýrum og þá hver?

Allir hafa hugmyndakerfi eða trúarbrögð til að túlka heiminn og eigin tilvist. Margar hafa aldrei komið þessum hugmyndum í orð eða meðvitað velt þeim fyrir sér, en hugmyndirnar eru þarna engu að síður.

Dyggð

Dyggð er kjarngott íslenskt orð en lítið notað í dag.3 Dyggð merkir að gera rétt þegar rangt er auðveldara. Eða, að gera rétt þegar enginn sér til. Dyggð er innri hvati og löngun til að gera rétt.

Frelsi og hugmyndakerfi

Horn þríhyrnings hér ofar hafa tengsl: Frelsi -> Hugmyndakerfi -> Dyggð -> Frelsi

Frelsi er forsenda trúarbragða og hugmyndakerfis því við verðum að hafa frelsi til að mynda okkur skoðanir. Það virkar ekki öðruvísi. Kristin trú virkar t.d. alls ekki nema við veljum Jesú af fúsum og frjálsum vilja. Kristin trú byggir á því að elska Jesú og forsenda kærleika er frelsi. Heilbrigt kristniboð virðir að allt fólk er skapað í mynd Guðs og hefur umboð og vald frá Guði sjálfum til að ákveða hvað það gerir við sinn eigin líkama og líf. Kristniboði gerir sitt besta í að sannfæra fólk um tilvist Guðs og boðar fagnaðarerindið en það er lína sem ekki á að fara yfir. Það þarf alltaf að virða það frelsi sem Guð hefur gefið fólki til að velja.

Skert frelsi skaðar hugmyndakerfi þjóðfélagsins, því gott hugmyndakerfi byggir á frelsi. Sannarlega er erfitt að sjá fyrir sér að hugmyndakerfi sem byggist á skertu frelsi og skorðum á því hvað má og má ekki hugsa, sé gott og heilbrigt.

Hugmyndakerfi og dyggð

Trúarbrögð og hugmyndakerfi hefur svo það hlutverk að byggja upp og auka dyggð. Hér fer áreiðanleiki hugmynda saman við árangurinn. Því betur sem hugmyndir endurspegla hvernig hlutirnir virka í raun og veru, því betur gengur hjá þeim sem framkvæmir hugmyndirnar. Hins vegar mun sá sem framkvæmir ranga hugmynd líklega skaða sjálfan sig og aðra.

Dallas Willard sagði:

Við mannfólkið erum hönnuð til að framkvæma samkvæmt hugmyndum okkar; og hugmyndir okkar, ef sannar, gera okkur mögulegt að höndla með raunveruleikann (hvernig hlutirnir eru í raun og veru).

Truth: Can We Do Without It?

Tökum dæmi. Ég stend fyrir framan vegg í stóru herbergi og dyrnar eru á hægri hönd. Ef ég nú af einhverjum orsökum er sannfærður um að dyrnar séu vinstra megin mun ég skaða sjálfan mig og jafnvel aðra líka ef ég framkvæmi þessa hugmynd með því að hlaupa til vinstri út úr herberginu. Konan mín meiddi sig einu sinni fyrir utan Café París í miðbænum þegar hún gekk rösklega að næsta lausa borði. Hún lenti á glervegg sem hún sá ekki. Þetta er það sem gerist þegar hugmyndir okkar stemma ekki við hvernig hlutirnir eru í raun og veru.

Sumar hugmyndir er auðvelt að sannreyna (er kústurinn inni í skáp?) en það er erfiðara en þó ekki ómögulegt með aðrar (hver er ég?).

Gott og rétt hugmyndakerfi ætti því að byggja upp dyggð. Þjóðfélag lendir í vandræðum ef slíkt hugmyndakerfi er ekki til staðar eða lítt virkt.

Dyggð og frelsi

Dyggð er svo forsenda frelsis. Því meiri dyggð, því minna þarf að vernda borgara landsins hver fyrir öðrum. Ef dyggð er lítil þarf líklega að setja strangar reglur og fjölga lögregluþjónum. Þetta liggur í hlutarins eðli.

Þjóðfélagsmat

Þetta módel nýtist til að meta ástand lands eða þjóðfélags. Það má spyrja spurninga eins og:

  1. Fer dyggð vaxandi eða minnkandi? Hvers vegna?
  2. Hvaða hugmyndakerfi er ríkjandi og er það að byggja upp dyggð eða ekki? Er ungt fólk hvatt til að hugsa gagnrýnið og gefinn kostur á að ræða spurningar um virði, tilgang, siðferði ofl.? Er líðan ungs fólks almennt að batna eða versna?4
  3. Hvað með frelsi? Er fólk frjálst að tjá og ræða skoðanir sínar? Er trú- og hugmyndafrelsi?

Fyrirmynd Jesú

Góð fyrirmynd kristniboðs er í Filippíbréfinu:

(5) Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var.  (6)  Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.  (7)  Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.  (8)  Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.

Fil 2:5-85

Jesús svipti sig öllu og kom fram sem maður. Hann þurfti að lægja sig til þess. Hann stígur inn í heim manna og talar og hlustar á okkur sem einn af okkur. Hann talar ekki niður til okkar, nei, hann er á sama stað og við og mætir okkur einmitt þar sem við erum stödd.

Heilbrigt kristniboð mætir fólki þar sem það er statt. Góður kristniboði leitast við að skilja annað fólk. Hver eru vandamálin? Hvað er mikilvægt? Kristniboð á að vera kærleiksrík þjónusta til að mæta fólki þar sem það er statt.

Þessi texti í Filippíbréfinu er frábært dæmi um samskipti því Jesús er það mikilvægasta sem Guð hefur sagt við mennina, og kristniboð er samskipti.

Lokaorð

Með allt þetta í hug er hægt að svara spurningunum sem nefndar voru í upphafi.

  • Hvað er kristniboð? Kristniboð er að segja frá Jesú og leitast við að sannfæra aðra um hvaða hugmyndir virka best og eru rétt lýsing á heiminum í kringum okkur og hvað er að vera manneskja.
  • Er kristniboð ekki tímaskekkja á 21. öldinni? Ef vel unnið kristniboð er tímaskekkja þá er það líka tímaskekkja að halda því fram að kristniboð sé tímaskekkja! Kristniboð segir vissulega að ein hugmynd sé betri en önnur. En hvar lendum við ef við hættum því? Er það þjóðfélag sem við viljum búa í?
  • Á ekki hver og einn að fá að vera bara eins og hann er? Gott þjóðfélag byggir á frelsi, þar með talið frjálsri samkeppni hugmyndanna. Tölum saman og rökræðum hvaða hugmyndir eru réttar og virka og megi bestu hugmyndirnar sigra! Vissulega verðum við að koma fram við fólk af virðingu og kærleika. Að elska aðra er m.a. að deila hugmyndum sínum með öðrum en virða umboð þeirra til sjálfsákvörðunar.
  • Af hverju að troða trú sinni á aðra? Ef troða er að neyða þá á það ekki heima í heilbrigðu samfélagi.

Höfundur: Ágúst Valgarð Ólafsson

Tilvísanir

  1. Orðin trúarbrögð og hugmyndakerfi eru hér notuð jafnt og í sömu merkingu. ↩︎
  2. Það er góð umfjöllun um þetta módel í bókinni If you can keep it eftir Eric Metaxas. ↩︎
  3. https://clarin.is/gogn/otb/ ↩︎
  4. Þetta er vísbending um á hvaða leið viðkomandi þjóðfélag er því unga fólkið er jú framtíðin. ↩︎
  5. 1981 útgáfa Biblíunnar á Íslensku ↩︎