Ný sambönd
Símon Pétur svaraði: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.” „Sæll ert þú, Símon Pétur,” svaraði Jesús, „því faðir minn á himnum hefur sjálfur sannfært þig um þetta – þú hefur þetta ekki frá neinum manni. Þú ert Pétur – kletturinn – á þessum kletti mun ég byggja söfnuð minn og vald vítis mun ekki megna að yfirbuga hann.
Mat 16:16-18
Fyrir opinberun heilags anda, játaði Pétur hver Jesús var í raun og veru; sonur hins lifanda Guðs. Jesús sagði að þessi sannleikur yrði hornsteinninn sem kirkja hans yrði byggð á.
Hann lýsti því einnig hvers konar kirkju hann myndi byggja, sigursæla kirkju sem myndi yfirbuga ríki myrkursins. Jesús og Páll notuðu orðið kirkja yfir fólk Guðs.
Kirkja vísaði því aldrei til byggingar. Hér á eftir má sjá fjóra kosti þess að vera hluti af kirkju í þínu nærumhverfi.
Vinátta
Sannir vinir. Allir þurfa á þeim að halda. Fáir finna þá. Besti staðurinn til að leita að sönnum vinum er innan kirkjunnar, meðal fólks Guðs.
Sannir vinir eru þeir sem bera hag okkar fyrir brjósti. Þeir standa með okkur í gegnum þykkt og þunnt. Sannir vinir leiða okkur aldrei í burtu frá Guði. Þess í stað brýna þeir okkur til guðsótta.
Vinur lætur aldrei af vináttu sinni,
í andstreymi reynist hann sem bróðir.
Orð 17:17
Til eru vinir sem bregðast
og til er sá vinur sem reynist tryggari en bróðir.
Orð 18:24
Samfélag
Sé brennandi kolamoli fjarlægður úr eldi, kólnar hann. Ef hann er aftur settur í miðja brennandi kolahrúguna, mun hann brenna á ný. Hið sama á við um kristna einstaklinga.
Hverfi kristinn einstaklingur frá samfélagi við aðra brennheita kristna, mun hann kólna andlega. Ef kristinn einstaklingur heldur sig við kristinn félagsskap, heldur hann sér brennandi fyrir Guði.
Eftir það leysti Guð hann úr greipum dauðans og lét hann vakna aftur til lífsins, því dauðinn gat ekki haldið honum … Allir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. Þeir seldu eigur sínar og skiptu síðan milli allra eftir þörfum hvers og eins. Þeir komu daglega saman í musterinu, til að lofa Guð og tilbiðja. Einnig hittist fólkið í smáhópum í heimahúsum þar sem brauðið var brotið. Þau neyttu fæðunnar með gleði og þakklæti…
Post 2:24, 44-46
Forðist félagsskap við þá sem ekki elska Drottin, því hvað eiga börn Guðs sameiginlegt með börnum syndarinnar? Hvernig er hægt að sameina ljós og myrkur?
2Kor 6:14
Tilbeiðsla
Guð leitar einlægra tilbiðjenda. Tilbeiðsla er einfaldlega það að tjá ást okkar, trúfesti og skuldbindingu við Guð.
„sá tími kemur þegar ekki skiptir máli hvort við tilbiðjum föðurinn hér eða í Jerúsalem. Spurningin er ekki hvar við tilbiðjum, heldur hvernig. Hverjum manni er nauðsynlegt að fá hjálp heilags anda til að geta tilbeðið Guð á réttan hátt og eftir hans vilja.”
Jóh 4:23-24
Að vera lærisveinn
Síðasta boðorðið sem Jesús gaf fylgjendum sínum áður en hann steig upp til himna var að fara og gera aðra að lærisveinum, og að kenna þeim hvernig eigi að hlýða orði Guðs.
Þess vegna eigum við fyrst að vera lærisveinar eða fylgjendur Jesú, síðan getum við kennt öðrum að fylgja honum.
Farið því og gerið allar þjóðir að mínum lærisveinum. Skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið ykkur. Takið eftir! Ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldarinnar.
Mat 28:19-20
Þitt hlutverk er að fræða aðra um það sem þú heyrðir mig tala í viðurvist margra votta. Þessi sannindi skaltu kenna mönnum sem hægt er að treysta svo að þeir geti síðan kennt þau öðrum.
2Tím 2:2
Hagnýting
- Færðu fræðslu, annaðhvort maður á mann eða í litlum hópi?
- Ert þú að gera aðra að lærisveinum? Hverjum kennir þú að hlýða orði Guðs?
- Ertu virkur meðlimur í kirkju í þínu nærumhverfi?
- Nefndu þrjá kristna einstaklinga sem þú getur hringt í ef þú ert í andlegri neyð.