8. Trúfesti

Nýjar venjur

Þau héldu fast við kenningu postulanna og ræktu samfélagið, brotningu brauðsins og bænirnar.
Post 2:42

Það sem gerði frumkirkjuna lifandi og heilbrigða var hollusta hennar við Guð. Með trúfesti óx hún í sambandi sínu við hann og þróaði venjur sem endurspegluðu þessa trúfesti. Tvær nauðsynlegustu venjurnar eru lestur Biblíunnar og bæn.

Orð

Biblían er ekki tilviljunarkennt safn sagna, ljóða og bréfa, heldur innblásið, ritað orð Guðs. Við verðum að fylgja dæmi Jobs, sem mat Guðs orð meira en fæðu.

Ég hef ekki vikið frá skipun vara hans. 

Ég hef varðveitt orð munns hans umfram daglega fæðu.
Job 23:12*

Athugasemd á þýðingu

Eigin þýðing höfundar á þessu versi þar sem bæði 1981 og 2007 útgáfur Íslensku Biblíunnar skortir þennan samanburð á orði Guðs við daglega fæðu okkar sem þó kemur fram í flestum vinsælum enskum þýðingum.

Við lifum samkvæmt veraldlegum viðmiðum áður en við snúum okkur til Krists. Nú viðurkennum við Biblíuna sem endanlega heimild þess hverju við trúum og hvernig við lifum.

Orð Guðs er okkar æðsta og endanlega viðmið fyrir öll svið lífsins. 

Mælikvarði framfara okkar er ekki hve mikið við vitum um Biblíuna heldur hve vel við hlýðum því sem í henni stendur. Þeir sem látlaust læra en mistekst að hlýða blekkja sjálfa sig.

Og munið: Ekki nægir aðeins að hlusta á boðskapinn, honum verður einnig að hlýða, athugið það!
Jak 1:22

Biblían er lykill okkar að andlegum vexti. Með henni lærum við einnig hvernig við stöndumst freistingu, hvernig við verðum farsæl, og hvernig við getum þekkt vilja Guðs fyrir líf okkar.

Ef þið hafið fengið að kynnast góðvild og kærleika Drottins, biðjið þá um meira af slíku – rétt eins og ungbarnið sem sækist eftir meiri mjólk – svo að þið vaxið og styrkist í Drottni.
1Pét 2:2-3

Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum?
Með því að gefa gaum að orði þínu … Ég geymi orð þín í hjarta mínu
svo að ég syndgi ekki gegn þér.
Sál 119:9, 11

Þessi lögbók skal ekki víkja úr munni þínum. Þú skalt hugleiða efni hennar dag og nótt svo að þú getir gætt þess að fylgja nákvæmlega því sem þar er skráð, til þess að ná settu marki og þér farnist vel.
Jós 1:8

Takið ekki framkomu og lífsvenjur heimsins ykkur til fyrirmyndar. Lifið sem nýir menn! Látið orð Guðs og anda hans móta hugarfar ykkar og alla framkomu ykkar, orð og verk. Ef þið gerið þetta, þá munuð þið fá að reyna að þekkja vilja Guðs sem er hið góða fagra og fullkomna.
Róm 12:2

Bæn

Kristni er meira en trúarbrögð. Hún er fyrst og fremst samband við Guð. Grundvöllur allra heilbrigðra sambanda eru samskipti.

Því betri sem samskiptin eru, því betra verður sambandið. Guð talar til okkar á marga vegu en aðallega gegnum orð sitt, Biblíuna. 

Við tölum við hann gegnum bæn. Við lærum að hlusta eftir rödd Guðs þegar við lesum orð hans. Hann hlustar á okkur þegar við biðjum. Við svörum orði hans með verkum. Hann svarar bænum okkar með verkum. 

Jesús er besta fyrirmyndin þegar kemur að bæn. Með því að virða fyrir okkur hans persónulega bænalíf getum við lært að eiga náið samband við föðurinn.

Eitt sinn er Jesús hafði verið í einrúmi á bæn kom einn lærisveinanna til hans og sagði: „Drottinn, kenndu okkur að biðja eins og Jóhannes kenndi sínum lærisveinum.”
Lúk 11:1

Jesús sagði okkur að biðja ekki eins og hræsnararnir og þeir sem ekki þekkja Guð.

Verið ekki eins og hræsnararnir þegar þið biðjið. Þeir biðja á áberandi hátt á götuhornum og í samkomuhúsunum, þar sem allir sjá þá. Ég segi ykkur satt. Allt og sumt sem þeir fá fyrir þetta er athygli annarra! … Þyljið ekki bænir ykkar í belg og biðu eins og heiðingjarnir. Þeir halda að bænin verði heyrð ef hún er nógu löng og fagurlega orðuð. Minnist þess að faðir ykkar veit nákvæmlega hvers þið þarfnist, jafnvel áður en þið biðjið.
Mat 6:5, 7-8

Jesús sagði okkur að biðja til föðurins, ekki til móðurinnar, dýrlinga eða engla. Við eigum að biðja í gegnum Jesú, því hann er eina leiðin til föðurins.

Vertu í einrúmi þegar þú biður. Lokaðu dyrunum og bið til föður þíns þannig að að enginn viti. Faðir þinn, sem þekkir leyndar hugsanir þínar, mun bænheyra þig.
Mat 6:6

En sannleikurinn er þessi: Það er aðeins til einn Guð og sá sem brúar bilið milli hans og mannanna er maðurinn Jesús Kristur og til þess gaf hann líf sitt í dauðann fyrir mannkynið.
1Tím 2:5

Jesús svaraði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, enginn kemst til föðurins nema hann trúi á mig.
Jóh 14:6

Jesús kenndi lærisveinum sínum að biðja um Guðs vilja, forsjá hans, fyrirgefningu, sigur yfir freistingu og vernd fyrir ráðabruggi djöfulsins.

Biðjið þannig: „Kæri Faðir, þú sem ert á himnum, helgist þitt nafn. Komi ríki þitt. Verði þinn vilji á jörðu eins og á himnum. Gefðu okkur fæðu í dag eins og aðra daga. Fyrirgefðu okkur syndirnar, eins og við fyrirgefum þeim sem syndga gegn okkur. Leiddu okkur ekki í þyngri prófraunir en þær sem við fáum staðist og frelsaðu okkur frá illu. Amen.
Mat 6:9-13

Er við lesum og hlýðum orðinu, og á meðan við biðjum og treystum Guði fyrir lífi okkar, skulum við ekki gleyma því að Guð svarar raunverulega bænum. Því nákvæmari sem bænin er, því nákvæmara verður svarið. Leyndarmálið er að biðja samkvæmt vilja hans. Við lærum að þekkja vilja hans með því að þekkja orð hans. Þannig að, ef við biðjum samkvæmt orði hans, þá vitum við að hann svarar.

Við vitum einnig með vissu að hann hlustar á okkur hvenær sem við biðjum hann eftir hans vilja. Og fyrst við erum viss um að hann hlustar þegar við tölum við hann og biðjum, megum við einnig treysta því að hann svari okkur.
1Jóh 5:14-15

Hagnýting

  • Hefurðu tekið frá stund og stað fyrir daglegan lestur og bæn?
  • Ertu hluti af heimahóp?
  • Hefurðu fyrirgefið þeim sem hafa syndgað gegn þér?
  • Byrjaðu að biðja fyrir daglegum þörfum þínum.