Nýtt líf
Pétur svaraði: „Sérhvert ykkar verður að snúa sér frá syndinni og láta skírast* í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar syndanna og þá fáið þið einnig þessa gjöf, heilagan anda … Þeir sem trúðu orðum Péturs tóku skírn, alls um 3000 manns.
Post 2:38, 41
Hvað merkir skírn?
Algengasta skírnin á Íslandi hefur lengi verið skírn á ungbörnum á vegum þjóðkirkjunnar. Þar er vatni yfirleitt dreift á enni barnsins. Í þessum texta er orðið skírn hinsvegar í skilningi þess sem á íslensku er stundum kallað niðurdýfingarskírn fullorðinna. Þar hefur einstaklingur sjálfur tekið ákvörðun um að taka skírn og skírnin er framkvæmd með því að dýfa viðkomandi í vatn svo yfir fljóti. Þess má geta að til eru dæmi um niðurdýfingu ungbarna þar sem barninu er dýft í vatn svo yfir fljóti. Niðurdýfing er því ekki endilega einskorðuð við svokallaða fullorðinsskírn.
Þegar mannfjöldinn spurði Pétur hvernig ætti að bregðast við ræðunni hans, þá gaf hann svarið í þremur punktum: Iðrist, skírist og fyllist heilögum anda.
Þúsundir brugðust við og bættust í hóp trúaðra. Biblíulega fyrirmyndin er sú að hver sem skírist bætist einnig við þennan hóp trúaðra.
Gert er ráð fyrir að hver einstaklingur sem skírist verði virkur meðlimur í kristnum félagsskap.
Skírn í vatni
Með skírn staðfestum við opinberlega það sem Kristur gerði fyrir okkur á krossinum. Hún er ekki forsenda sáluhjálpar heldur hlýðni- og trúarskref í kjölfar þess að trúa fagnaðarerindinu og snúa sér til Guðs.
Biblían gefur fjölda samlíkinga til að hjálpa okkur að skilja skírnina. Ein þeirra er greftrun og upprisa.
Páll ber kristna skírn saman við greftrun. Til að vera grafinn, þarf einstaklingurinn að deyja. Á sama hátt er forsenda skírnar sú að deyja synd sinni.
Eftir greftrun í skírn rísum við upp til nýs lífs.
Hvað er um þetta að segja? Eigum við að halda áfram að syndga svo að Guð geti sýnt okkur kærleika sinn og fyrirgefningu enn betur? Nei, alls ekki! Hvaða vit er í því að syndga ef hægt er að komast hjá því? Valdið sem syndin hafði yfir okkur, var brotið á bak aftur þegar við urðum kristin og vorum skírð til að verða samgróin Kristi. Dauði Krists braut á bak aftur það afl sem syndin hafði í lífi okkar. Okkar gamla eðli, sem elskaði syndina, var grafið með honum í skírninni þegar hann dó. Og þegar Guð faðir reisti hann aftur til lífsins með dýrlegum krafti, þá eignuðumst við hlutdeild í lífi hans.
Róm 6:1-4
Með þessu sjáum við að í skírninni er hið gamla líf sett til hliðar og hið nýja líf birtist í hlýðni við Krist.
Skírn heilags anda
Það er ómögulegt að lifa hinu kristna lífi án krafts og nærveru heilags anda. Jesús lofaði að heilagur andi kæmi til að leiða okkur í allan sannleikann.
Ég segi ykkur satt það er ykkur til góðs að ég fari, því að fari ég ekki þá mun hjálparinn ekki koma en ef ég fer þá kemur hann því að ég mun senda hann til ykkar … En þegar heilagur andi, sannleiksandinn, kemur, mun hann leiða ykkur í allan sannleikann. Hann mun ekki tala af sjálfum sér, heldur skýra ykkur frá því sem hann hefur heyrt. Hann mun fræða ykkur um framtíðina.
Jóh 16:7, 13
Heilagur andi eflir okkur til að vera áhrifarík vitni. Vitni er sá sem segir ekki aðeins sannleikann heldur lifir honum líka. Sem vitni hans, hjálpar heilagur andi okkur að gera það sem við getum ekki gert á eigin spýtur – að játa og lifa sannleikanum um Guð með djörfung.
En þegar heilagur andi kemur yfir ykkur, þá munuð þið fá djörfung og kraft til að vitna um dauða minn og upprisu fyrir íbúum Jerúsalem, Júdeu, Samaríu – já, öllum heiminum.
Post 1:8
Að taka á móti skírn heilags anda
Skírn heilags anda er gjöf sem lofað er hverjum þeim sem trúir, ekki aðeins þeim sem voru viðstaddir Hvítasunnudag. Í ræðu Péturs sagði hann okkur hvernig við getum tekið við gjöf heilags anda.
Pétur svaraði: „Sérhvert ykkar verður að snúa sér frá syndinni og láta skírast í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar syndanna og þá fáið þið einnig þessa gjöf, heilagan anda. Kristur hét því að allir skyldu fá gjöf heilags anda, allir sem Drottinn Guð okkar kallar til sín, einnig börnin ykkar og þeir sem búa í fjarlægum löndum.”
Post 2:38-39
Til að taka við skírn heilags anda, þurfum við að biðja um hana – og við verðum að biðja í trú.
Fyrst þið syndugir menn gefið börnum ykkar góðar gjafir þá er víst að faðirinn á himnum gefur þeim heilagan anda sem biðja um hann.
Lúk 11:13
Margir fylgjendur Jesú í Nýja testamentinu fengu skírn heilags anda með handayfirlagningu.
Og Pétur og Jóhannes lögðu hendur yfir þá sem trúðu og fengu þeir þá heilagan anda.
Post 8:17
Andans gjafir
Með skírn heilags anda fylgja andlegar gjafir. Í frásögnum Biblíunnar af skírn heilags anda er sú algengasta gjöf tungutals.
Þá fylltust þeir allir heilögum anda og fóru að tala tungumál, sem þeir höfðu aldrei lært en heilagur andi gerði þeim kleift að tala.
Post 2:4
Og síðan, er Páll lagði hendur á höfuð þeirra, kom heilagur andi yfir þá og þeir töluðu í tungum og spáðu – fluttu boðskap frá Guði.
Post 19:6
Vald til að vitna
Jesús lofaði að fylla okkur með heilögum anda svo við getum verið áhrifarík vitni. Heilagur andi eflir okkur til að boða fagnaðarerindið hvert sem við förum.
En þegar heilagur andi kemur yfir ykkur, þá munuð þið fá djörfung og kraft til að vitna um dauða minn og upprisu fyrir íbúum Jerúsalem, Júdeu, Samaríu – já, öllum heiminum.”
Post 1:8
Hagnýting
- Hefurðu iðrast synda þinna?
- Hefurðu sett traust þitt eingöngu á Krist fyrir sáluhjálp?
- Hefurðu tekið niðurdýfingarskírn síðan þú iðraðist? Viltu taka niðurdýfingarskírn?
- Hefurðu tekið við skírn heilags anda? Viltu að einhver biðji með þér um að fá skírn heilags anda?