Hvernig myndir þú lýsa Guði?
Miðlægt í kristinni trú er skilningurinn á því að við vorum sköpuð til að lifa í nánu, kærleiksríku og innihaldsríku sambandi við Guð. Það sem við vitum og trúum um einhvern ákvarðar hvernig við tengjumst honum. Þess vegna, ef við ætlum að upplifa þetta samband að fullu, er mikilvægt að við þróum með okkur réttan skilning á því hver Guð er og hvernig hann er.
Við gætum eytt eilífðinni í að kanna Guð og aldrei skilið allt til fulls. En Guð þráir að við vitum ekki aðeins um hann heldur að við þekkjum hann persónulega þegar hann opinberar sig og býður okkur að bregðast við.
Hér á eftir koma nokkur lykilatriði sem munu hjálpa okkur að þekkja Guð og vaxa í sambandi við hann.
Jesús opinberar okkur Guð
Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð en einkasonur hans, sem stendur næst föðurnum, hefur kennt okkur að þekkja hann.
Jóh 1:18
Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.
Jóh 14:9
Besta leiðin til að vita hvernig Guð er er að horfa á Jesú. Það er erfitt fyrir takmarkaðar mannverur að skilja óendanlegan Guð en í Jesú sjáum við eðli, persónu og hjarta Guðs í mannlegri mynd.
Besta leiðin til að byrja að leggja traustan grunn að sambandi við Guð er því að rannsaka líf og kennslu Jesú og spyrja: „Hvað opinberar þetta um Guð?“.
Guð er faðir, sonur og heilangur andi
Síðan ávarpaði hann lærisveinana og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að mínum lærisveinum. Skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið ykkur. Takið eftir! Ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldarinnar.”
Mat 28:18-20
Í gegnum alla Biblíuna er Guð kynntur sem einn Guð sem er til í þremur persónum: Faðir, sonur og heilagur andi. Guð faðirinn er skaparinn, lífgjafinn og konungur alheimsins. Sonurinn er sýnileg ímynd hins ósýnilega Guðs sem var sendur til að frelsa heiminn. Andinn er Guð í verki – hann nær til, endurnýjar, leiðbeinir og eflir fólk Guðs.
Allir þrír eru þríeining (kölluð þrenningin eða guðdómurinn), búa hver í öðrum og vinna saman í fullkominni einingu til að framkvæma guðlega áætlun Guðs í alheiminum.
Guð er fullkominn
Verið því fullkomin eins og ykkar himneski faðir er fullkominn.
Mat 5:48
Væri það ekki dásamlegt ef allt fólk í heiminum okkar – þar á meðal við – væri fullkomið? Sannleikurinn er sá að sama hversu mikið við reynum munum við alltaf bregðast. En Guð gerir það ekki: Hann er hinn fullkomni mælikvarði.
Hann er kletturinn, verk hans eru fullkomin og allir vegir hans eru réttlátir. Trúr Guð sem gerir ekkert rangt, réttlátur og sanngjarn er hann.
5Mós 32:4
Guð er ekki takmarkaður. Hann bregst ekki, hann á ekki slæma daga og hann gefst ekki upp. Í heilagleika sínum, kærleika, krafti og öllum öðrum eiginleikum Guðs sem þú getur hugsað þér, sýnir hann þá fullkomlega.
Guð er kærleiksríkur faðir
Biðjið þannig: „Kæri Faðir, þú sem ert á himnum, helgist þitt nafn...”
Mat 6:9
Jesús opinberaði að Guð á ekki aðeins að vera þekktur sem stjórnandi, kennari, dómari eða sem fjarlægur guðdómur til að dýrka. Guð er faðir okkar.
Þar að auki er Guð ekki bara einhver faðir: Hann er fullkominn, kærleiksríkur faðir. Einn af nánustu lærisveinum Jesú skrifaði síðar þetta um Guð:
Sá sem ekki sýnir kærleika, þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur … Við vitum að Guð elskar okkur – við höfum fundið kærleika hans! Við vitum það einnig vegna þess að við trúum orðum hans, að hann elski okkur.
1Jóh 4:8, 16
Í sambandi okkar við Guð ættum við að vita að kærleikur hans er ekki eins og ófullkominn mannlegur kærleikur okkar. Guð ER kærleikur og því er alltaf hægt að treysta á að hann elski okkur fullkomlega, skilyrðislaust og á raunhæfan hátt.
Guð frelsar með mætti
Jesús opinberar að Guð er ekki máttlaus áhorfandi. Guð grípur inn í og hefur áhrif með mætti til að breyta hlutunum. Guð er bæði fær og fús til að gera það sem nauðsynlegt er til að umbreyta lífi okkar og aðstæðum.
Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf sinn eingetinn son, til þess að hver sem trúir á hann glatist ekki, heldur eignist eilíft líf.
Jóh 3:16
Í gegnum jarðneska þjónustu Jesú upplifðu margir sem voru sjúkir, brotnir, vonlausir og hjálparvana mátt Guðs til að breyta lífi þeirra. En það er í lífi Jesú, dauða og upprisu sem við sjáum æðstu sönnunina fyrir kærleika Guðs og mætti hans til að frelsa okkur.
Guð blessar ríkulega
Guð gerir ekki bara lágmarkið. Hann er ríkulega örlátur í að ausa yfir okkur kærleika sínum, náð, gæsku og gjöfum.
…hversu miklu fremur mun faðir ykkar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann?
Mat 7:11
Hann er ekki Guð þess sem er ekki nóg eða rétt nóg. Hann er Guð þess sem er meira en nóg og hann elskar að sjá fyrir þörfum okkar.
Guð mun veita ykkur ríkulega allt sem þið þarfnist í samfélagi ykkar við Krist Jesú.
Fil 4:19
Guð er með okkur
Í Jesú uppgötvaði fólk að Guð var ekki fjarlægur heldur var hann með þeim. Jafnvel þeir sem voru ekki trúaðir, óverðugir og útskúfaðir upplifðu að Guð nálgaðist þá. Áður en Jesús steig upp til himna lofaði hann fylgjendum sínum að hann myndi halda áfram að vera með þeim fyrir heilagan anda – sendan til að búa innra með þeim, til að opinbera þeim Guð, leiðbeina þeim og styrkja þá.
Takið eftir! Ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldarinnar.
Mat 28:20
Þessi sami Guð er nálægur okkur í dag og hann býður okkur að þekkja hann, treysta honum, vaxa í honum og ganga með honum.
Hagnýting
- Hvað hefur þú uppgötvað um hver Guð er?
- Hvað hafði mest áhrif á þig?
- Á hvaða hátt langar þig að kynnast Guði betur?
- Hvað ætlar þú að gera í því í þessari viku?
Næsta skref: Byrjaðu að L.E.S.A. Markúsar- eða Jóhannesarguðspjall.
(sjá viðauka 2: Að upplifa Guð)